Draumurinn

Mig dreymdi í nótt að ég væri myndlistamaður.  Ég hafði fengið stóran sal til umráða, hátt til lofts og vítt til veggja en mjög hráan, svipaðan húsi tilbúnu undir tréverk.  Ég fékk til liðs við mig vini mína og fjölskyldu en líka fólk af öllu tagi, iðnaðarmenn og fagfólk.  Þarna eyddum við [draum-] vikum í að innrétta allt: flísaleggja gólfið, reisa upp veggi og byggja eldhúsinnréttingu með allskyns skápum og öllum þeim græjum sem í flottri innréttingu eiga að vera.  Miklum tíma var eytt í þetta og allir viðstaddir áttu þarna langar samvistir - oft fram á nótt.  Allt var fínpússað í hólf og gólf og hugað að sérhverju smáatriði.  Nema á frumsýningardaginn, nokkrum mínútum fyrir opnunina var ég á þönum fyrir aftan verkið, að stinga rafmagnssnúrum af öllum þessum ótengdu rafmagnstækjum eldhússins inn í skápa og á bakvið þegar ég áttaði mig á að ég hafði ekki sent neina boðsmiða.  Einhvernvegin fannst mér þetta vera allt í lagi, áttaði mig um leið hvað verkið heitir og skrifaði það á áberandi stað á þann vegg sem snéri að innganginum. .  Síðan tók ég mér stöðu fyrir framan hjálparfólkið (sá útundan mér að einhverjir nýkomnir gestir höfðu bætst við í hópinn) og hélt opnunarræðuna um það sem mér hafði skilist þarna fyrr:

„Góðir gestir, það sem þið sjáið hérna er verk sem heitir ‚Tilveran´.  Mestur hluti sýningartímans fór í að setja sýninguna upp svo að tíma verksins er brátt lokið.  Þetta verk á sér því hvorki nokkra tilveru áður en við komum hingað né eftir að við förum héðan.  Þetta verk á sér enga tilveru nema í samvinnu þeirra sem að því stóðu: vina minna, fjölskyldu og þeirra sem tóku þátt.  Það lítur út fyrir að vera nothæf íbúðareining en er það ekki - eini tilgangur hennar var samvinna þeirra sem að henni stóðu.  Veggirnir sem þið sjáið inni í rýminu eru engir alvöru stoðveggir, heldur tjaslað saman fyrir þessa einu sýningu; þegar við förum héðan verður þetta allt rifið.  Ekkert tækjanna virka, hér er hvorki straumur né vatn,  Það eina sem stendur er samvinna þessa fólks og það sem það gerði.  Því bið ég ykkur að athuga verkið vel og gera ykkur það minnistætt.  Ég segi sýninguna því setta og bið ykkur að gjöra svo vel.

... og þá hringdi klukkan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Þessi draumur kallar á djúpar pælingar

Guðrún Sæmundsdóttir, 7.2.2008 kl. 21:32

2 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður. Hlakka til að heyra ráðningu draumsins. Kannski ert þú með þá gáfu að geta ráðið drauma. Þegar þú skrifar um drauma þá dettur manni Jósef í hug.

Jósef réði drauma Faraós. Bræður hans seldu hann vegna öfundar, mönnum sem voru á ferð til Egyptalands. Þeir skrökvuðu að föður hans að sennilega væri hann dáinn. Jósef þurfti að líða í mörg ár en allt var þetta í áætlun Guðs. Jósef bjargaði mörgum sem annars hefðu dáið úr hungri vegna þess að Guð almáttugur hafði gefið honum visku að ráða þessa drauma og honum var falið að framfylgja hugmyndum sem hann bar undir konung eftir ráðningu draumana. Guð hafði gefið þessum dreng mikla visku. Guð blessi ykkur á Suðvesturlandinu þar sem vindurinn blæs og blæs.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 10.2.2008 kl. 02:15

3 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Ég hitti einmitt einn bloggvin minn á samkomu í dag sem spurði hvort þetta hefði í alvöru verið draumur.  Staðfestist hérmeð, var m.a.s. ótrúlega skýr, ég sem dreymi eiginlega aldrei.  En ástæða þess að ég skrifaði hann niður var að þetta er einmitt leiðin sem við lifum hérna heima: með hvort öðru og fyrir hvert annað.  M.ö.o. lífið okkar á sér enga tilveru nema með Kristi og lífi Hans í okkur og fyrir okkur.  Og það eina sem stendur þegar tilveru okkar líkur er það sem við gerðum fyrir samferðafólkið okkar - nb. ekki það sem við gerðum fyrir okkur sjálf.

Ragnar Kristján Gestsson, 10.2.2008 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband