Hvað gerir vantrúin fyrir þig?

Eftirfarandi snaraði ég uppúr bókinni „Jesús, örlög okkar“ eftir þýska prestinn Wilhelm Busch (1897-1966). 
Þegar ég var enn ungprestur átti sér eitt sinn stað á Ruhrsvæðinu skemmtilegur atburður: Einhverju sinni var haldin þar stór samkoma þar sem menntaður maður tók sér tvær klst. til að afsanna tilveru Guðs.  Hann lagði alla sína menntun á borðið.  Salurinn var fullur áheyrendum.  Þar að auki var hann fullur af tóbaksfnyk.  Og ekki vantaði undirtektirnar: „Húrra!  Það er enginn Guð til!  Við getum gert það sem við viljum!“  Eftir tvær stundir þegar ræðumaðurinn hafði lokið máli sínu stóð upp fundarstjórinn og sagði: „Nú hefjast umræður.  Sá sem eitthvað vill segja hann láti vita af sér.“  Náttúrulega skorti alla hugrekki til þess.  Allir hugsuðu: „Svona menntuðum manni er ekki hægt að mótmæla.“  Ábyggilega voru margir þarna sem voru honum ekki sammála en hver þorir svo sem að stíga upp í pontu fram fyrir þúsund manns sem hrópa og klappa lof í lófa.  Og þó.  Ein rödd bað hljóðs.  Aftan úr salnum gerði gömul amma vart við sig, svona alvöru austurprússnesk amma með þessháttar svarta húfu sem eru svo vinsælar á Ruhrsvæðinu.  Fundarstjórinn svarar beiðni hennar og segir: „Jæja amma, viltu segja eitthvað?“  „Já,“ svarar amman, „ég vildi segja eitthvað.“  „Nú, þá verður þú að koma hingað upp.“  „Já, ekkert vandamál.“  Hugrökk kona.  Líklega hefur þetta verið árið 1925.  Amma marserar sumsé fram salinn, uppí pontuna og hefur mál sitt:  „Herra ræðumaður, núna hafið þér talað í tvær klukkustundir um vantrú yðar.  Leyfið mér núna í 5 mínútur að segja frá trú minni.  Mig langar að segja yður hvað Herra minn, minn himneski faðir, hefur gert fyrir mig.  Sjáið þér til: þegar ég var ung kona þá lést maðurinn minn af slysförum í námunum og þeir færðu mér líkið hans heim.  Þarna stóð ég síðan með litlu börnin mín þrjú.  Á þessum tíma voru almannatryggingar mjög takmarkaðar.  Ég hefði getað örvinglast þar sem ég stóð þarna við hlið látins eiginmannsins míns.  Og sjáið þér til: þarna byrjaði það, hvernig Guð hughreysti mig á máta sem engin manneskja hefði getað gert.  Það sem mennirnir sögðu fór innum annað eyrað og útum hitt.  En Hann, hinn lifandi Guð, Hann huggaði mig!  Og svo sagði ég við Hann: „Drottinn, núna verður þú að vera faðir barnanna minna.“  (Það var átakanlegt hvernig gömlu konunni sagðist frá!)  Oft vissi ég ekki að kvöldi hvaðan ég fengi peninga til að fæða börnin mín næsta dag.  Og aftur sagði ég þarna Lausnara mínum: „Drottinn þú veist þó hve illa er fyrir mér komið.  Hjálpa þú mér!“  Og síðan snýr gamla konan sér að ræðumanninum og segir: „Hann brást mér aldrei, aldrei!  Oft var myrkrið svart en Hann brást mér aldrei.  Og Guð gerði enn meira: Hann sendi son sinn, hann herra Jesús Krist.  Hann dó fyrir mig og reis upp frá dauðum og þvoði mig af öllum syndum með blóði sínu!  Já,“  hélt hún áfram, „núna er ég orðin gömul kona.  Brátt mun ég deyja.  Og sjáið þér til: Hann gaf mér líka örugga von um eilíft líf.  Þegar ég læt hérna augun aftur þá vakna ég upp á himnum, því ég tilheyri Jesú.  Allt þetta gerði Hann fyrir mig!  Og nú spyr ég yður, herra ræðumaður:  Hvað hefur vantrú yðar gert fyrir yður?“  Þá stóð ræðumaðurinn upp, klappaði ömmunni gömlu á öxlina og sagði: „ojæja, ekki viljum við svifta svona gamla konu trúnni.  Hún er góð fyrir gamlingja.“  Þið hefðuð átt að sjá gömlu konuna fulla af orku, hvernig hún bandaði þessu frá sér og hvessti augun: „Nei, nei ekkert svona, þú sleppur ekki svona létt!  Ég spurði yður spurningar og henni skulið þér svara!  Hvað Drottinn minn gerði fyrir mig, það hef ég sagt yður.  Og segið þér mér núna: Hvað hefur vantrúin gert fyrir yður?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband