Er til önnur leið en leið helgunar og hreinsunar ???

Ég er ennþá að lesa „Kristnir píslarvottar,“ eftir Curt Björgquist í þýðingu Ásmundar Eiríkssonar sem Fíladelfía gaf út 1949.  Er kominn þar við sögu að árið er 284 og Diocletíanus er orðinn keisari í Rómaveldi.  Síðan stendur um hinar innri ástæður:


Þá miklu velsæld, er kristnir menn áttu við að búa, ár eftir ár, kunnu þeir ekki með að fara.  Eusebíus sýnir fram á, hvernig velgengnin og frjálsræðið meðal hinna trúuðu, hafði hægt og hægt opnað dyrnar fyrir léttúð og andlegum sljóleika.  Upphefð og virðing, er margir kristinir menn hlutu, hleypti af stað öfund og óvináttu bræðra á milli.  Af því leiddi deilur, nagg og ýmiss konar óvirðingar.  Forstöðumenn risu í gegn forstöðumönnum og söfnuðir í gegn söfnuðum. 
Þá leyfði Guð ofsóknunum að skella yfir.


Kirkjan þarna var ofsótt eins og kirkjan er ofsótt í mörgum löndum en óx samt mjög hratt.  Eftir að hafa heyrt bróður Yun (Heavenly Man/Himmelsbürger/man ekki hvað hún heitir á ísl) segja frá vexti húskirkjanna í Kína þrátt fyrir svakalega ofsóknir hlaut ég að skoða hvernig vesturlönd stæðu sig.  Man að Yun talaði um að stærsta vandamál sem vestræn kirkja stæði frammi fyrir væri velmegunin.  Svissnesku pastorinn Ivo Sasek talar ekki um annað en leiðir kristinnar kirkju út úr vandamálum velmegunar.  Ofsóknir á okkar kirkju eru fyrst og fremst vegna þess að við leyfum þeim að gerast – innri ástæður.  Hérna er enginn fangelsaður af trúarlegum ástæðum – einna helst að blogginu manns sé lokað vogi maður sér að kalla hlutina réttum nöfnum en allt gerist samt á mjög “faglegum nótum”.  Vegna þess að kristnir hér, ólíkt öllum ofsóttum kirkjum fyrr og síðar, taka einfaldlega þátt í öllu sukkinu með heiminum.  Þess vegna kemur aldrei til þess að Kristur tali um okkur eins og hann segir við föður sinn í Jóh 17.14:
Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminm, eins og ég er ekki af heiminum.  ... (v.23)) ... ég í þeim og þú í mér svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá eins og þú hefur elskað mig.


Útlitslega séð skerum við okkur ekki úr, við eru jafn ofnærð (lesist: andleg og líkamleg offita) og heimurinn (nb. á vesturlöndum).  Við eigum jafnerfitt með að láta enda ná saman, við eyðum jafnmikið um efni fram.  Við þráum sama lúxusinn og leyfum okkur jafnmikið.  Börnin okkar hafa sama hlufall af ADHD og standa sig jafnilla (/vel) í skólunum.  Við vinnum jafn ofsamikið og eyðum jafnlitlum tíma með börnum og fjölskyldum.  Skilnaðir eru hjá okkur jafntíðir, fyllerí og sjálfsmorð líka. Við horfum á sömu sjónvarpsþættina og ræðum og rökræðum á sama máta.  Við getum skrifa fallega hluti á netinu en heimilin okkar og prívatlífið er jafn heltekið af einstaklingshyggju og jafn innihaldsrýrt og hjá hinum.  Þegar upp er staðið, frá hverju erum við eiginlega frelsuð?  Og af hverju ætti heimurinn að hata okkur þegar við stöndum okkur jú jafnilla og hann?  Salt jarðar?  Ljós heimsins?  Kannski spurning hvort Moggabloggið sé réttur grundvöllur fyrir umræðu af þessu tagi en ég veit ekki að hún eigi sér stað annarstaðar.  Þigg leiðréttingu fagnandi.

En ég vil ekki lengur taka þátt í þessu.  Höldum við virkilega ennþá að það sé til önnur leið en helgun og hreinsun?


Píslarvætti Apollóníusar

Nú er ég alveg að verða búinn í prófum en gat ekki alveg á mér setið að deila með ykkur kvöldlesningunni minni.  Á bókasafninu rakst ég á merkilega bók: „Kristnir píslarvottar,“ eftir Curt Björgquist í þýðingu Ásmundar Eiríkssonar og sem Fíladelfía gaf út 1949.  Í einn stað hræðileg frásögn af pyntingum og aftökum trúsystkina okkar en á sama tíma stórkostleg lesning sigurs andans yfir holdinu.  Svo ég vil deila einum kafla, XI, með ykkur
Ég fann í þessum kafla margt sem er líkt með okkar tímum sem ég eftirlæt þeim sem les þetta að sjá.  Síðan væri gaman ef einhver gæti hjálpað mér að sjá hvert sé fánýti og hégómleiki hjáguðanna, sem samtíð okkar trúir á.  Annað sem gaman væri ef einhver útskýrði hvernig hafi staðið á því að því fleiri kristnir sem voru myrtir á þessum tíma, því meira fjölgar þeim.

XI kafli, Píslarvætti Apollóníusar
Á ríkisstjórnarárum Markúsar Aurelíusar og eftirmanns hans, Kommódusar, sem var tvennt í senn; siðlaus og treggáfaður (180-192), var viðunandi friðsamur tími fyrir kristindóminn.  Á því tímabili gekk fjöldi manns til kristinnar trúar.  Var þá svo komið að kristindómurinn hafði breiðzt út meðal allra stétta í þjóðfélaginu.  Þannig segir Eusebíus frá, að „margir ríkir menn í Róm og ættgöfgir hafi, ásamt fjöskyldum sínum og frændliði, látið frelsast.“
Samt sem áður eru nokkur dæmi um það, að kristnir menn þurftu á þeim tíma að líða píslarvætti.  Í Madura voru t.d. tveir menn teknir af lífi fyrir trú sína, og í Frygíu var hópur kristinna manna líflátinn.  Í Róm voru margir dæmdir í þrælkunarvinnu til Sardíníu.
- - -
Appóllóníus var af egypzkum ættum.  Hans rétta og upphaflega nafn var Sakkeas.  En eins og margir fleiri landsmanna hans hafði hann orðið fyrir áhrifum frá Hellenistum.  Seinna flutti hann til Róm og komst þar til mikilla virðinga vegna lærdóms síns í vísindum og heimspeki.  Hér var það, í hinni miklu heimsborg, að hann tók trúna á Jesúm Krist.  Nokkru seinna bar einn af þrælum hans sök á hann fyrir það, við yfirmann lífvarðarins, að hann væri kristinn.
Þegar Appóllóníus var spurður um það, hvort hann væri kristinn, játaði hann því.  Næst var hann spurður, hvort hann vildi ekki votta keisaranum guðdómlegan heiður.  Því neitaði hann.  Nú var ekki um annað að ræða fyrir héraðsstjórann, Perennis, en að hefja réttarhöld yfir honum, þótt það væri á móti hans eigin vilja.
 - - -
Við skulum nú tilfæra hér, í mjög stuttu máli, þáttinn um píslarvætti Apollóníusar. 
Þegar Appóllóníus kom fyrir réttinn, hófust réttahöldin
Héraðsstjórinn: Appóllóníus, ert þú kristinn?
Appóllóníus: Já, ég er kristinn, og þess vegna heiðra ég Guð og óttast Hann, sem skapað hefur himin og jörð og hafið, og allt, sem í þeim er.
Héraðsstjórinn: Skiptu um hugarfar. Hlýddu mér, Appóllóníus, og sver við herra okkar, Komódus keisara.
Appóllóníus: Hlýð gaumgæfilega á mál mitt, Perennis, er ég verð nú að halda hér fyrir þér alvarlega varnarræðu.
- - -
Í varnarræðu sinni benti nú Appóllóníus á, að rétt hugarfarsbreyting gæti ekki byggzt á því, að menn hyrfu frá því að hlýðnast boðum Guðs, heldur hinu, að maðurinn ætti að hverfa frá öllu ranglæti, frá hjáguðadýrkun, frá vondum hugsunum og öllu drottinvaldi syndarinnar.  Ennfremur sagði hann, að kristnir menn hefðu það boð frá Drottni, að þeir ættu aldrei að sverja, en ætíð að segja sannleikann.
Perennis endurtók nú á ný, það sem hann hafði áður sagt:
 - Það, sem ég býð þér, það skaltu gera: Ger hugarfarsbreytingu, Appóllóníus.  Hylltu Kommodus keisara og mynd hans!
Appóllóníus svaraði hlæjandi:  Ég hef skýrt afstöðu mína til hugarfarsbreytinga og eiðstafa.  En hlýddu nú á mál mitt um fórnirnar.
 - Við framberum fyrir hinn almáttuga Guð óblóðuga og hreina fórn.  ... Í öðru lagi biðjum við, samkvæmt guðdómlegu boði, daglega til Guðs í himninum fyrir Kommodusi keisara, sem Hann – Guð – hefur skipað hér á jörðu.
Héraðsstjórinn:  Ég gef þér umhugsunarfrest, Appóllóníus.  Þú skalt íhuga kringumstæður þínar.  Líf þitt er undir því komið!
- - -
Meðan á frestinum stóð, lét Perennis færa sér fyrirskipanir öldungarráðsins.  Þar sagði svo fyrir, meðal annars:  Kristnir menn eiga ekki að vera til, það er að segja, ef þeir játa það, að þeir séu kristnir og neita að fórna guðum ríkisins.  Þá skal hegna þeim með lífláti.
- - -
Að þrem dögum liðnum gaf héraðsdómarinn fyrirskipun um, að Appóllóníus skyldi koma fyrir réttinn á ný.  Við þetta tækifæri voru margir ráðherrrar, öldungaráðsmenn, og lærðir menn viðstaddir.
Þegar Appóllóníus kom fyrir réttinn, bauð héraðsstjórinn, að lesið skyldi úr embættisbókinni, það sem laut að þessu máli.  Þegar því var lokið, ávarpaði dómarinn sakborninginn og sagði:
 - Að hvaða niðurstöðu hefur þú komizt, Appóllóníus?
Appóllóníus: Ég ætla mér að heiðra Guð framvegis.
Perennis: Í nafni ríkisráðsins ræð ég þér til þess að skipta um hugarfar og heiðra og dýrka guðina, sem við allir heiðrum og dýrkum, og lifa síðan meðal okkar áfram.
Appóllóníus: Ég veit hver úrskurður ríkisráðsins er, Perennis.  En ég vil ekki þjóna þeim guðum, sem gerðir eru af mannahöndum og geta ekki sér, heyrt eða hreyft sig, en Guði himinsins þjóna ég, Honum, sem gefur öllu líf.  Ég vanhelga mig ekki með því, að tilbiðja það sem stendur í jafnlægð manna eða lægra en þeir ...
Fleira þessu líkt sagði Appóllóníus um fánýti og hégómleika hjáguðanna, sem samtíð hans trúði á.  Héraðsdómarinn reiddist því þessarri djörfu ádeilu Appóllóníus og fór nú að nota hótanir:
Héraðsdómarinn: Appóllóníus, ákvörðun ríkisráðsin er þessi, að kristnir menn skuli ekki eiga neinn tilverurétt.
Appóllóníus: Ákvörðun Guðs fellur ekki til jarðar fyrir ákvörðunum manna.  Því fleiri, sem þið myrðið af kristnum mönnum, því meira fjölgar þeim.  Ég óska að þú megir vita það, Perennis, að keisurum, ráðherrum og valdhöfum, fátækum og ríkum, frjálsum og ófrjálsum, vitrum og óvísum hefur Guð ætlað eitt sinn að deyja, og eftir það er dómurinn. (Hebr. 9, 27).
En það er til tvenns konar dauði, hélt Appóllóníus áfram.  Þeir, sem lifa samkvæmt kenningu okkar, deyja daglega frá girndum sínum. – Þar eð við höfum slíka grundvallarkenningu, finnst okkur það síður en svo erfitt að deyja líkamlegum dauða, vegna hins sanna Guðs. –
Héraðsstjórinn:  Þar sem þú hefur komizt að þessari niðurstöðu, þá vilt þú gjarna deyja?
Appóllóníus: Gjarna vil ég lifa, Perennis.  Þó ekki af ótta við dauðann og elsku til hins tímanlega lífs.  Ekkert er jafnmikils virði og lífið, það er að segja eilífa lífið, því að það er ódauðlegt fyrir þann mann, sem lifir réttlátlega í þessu lífi.
 - - -
Perennis:  Ég hélt það, Appóllóníus, að þú mundir hverfa frá villu þinni, og að þú mundir heiðra guðina, eins og við hinir.
Appóllóníus:  Ég hélt fastlega, að réttlátar hugsanir fyndust hjá þér og andleg augu þín mundu ljúkast upp, er þú heyrðir, á hverju ég byggi málsvörn mína.
Hér:  Ég vildi óska, að ég gæti gefið þér líf, en úrskurður keisarans útilokar það.  En ég skal breyta mannúðlega við þig í dauðanum.
Hér lýkur réttarhöldunum.
Af því, sem Eusebíus segir um réttarhöldin yfir Appóllóníus, sést, að enda þótt hann væri útlendur maður, mildaði Perennis svo dauðadóm hans að hann var hálshöggvinn, eins og gert var við rómversk þegna, sem dauðadóm hlutu.
Píslarvætti Appóllóníus er eftirtektarvert að því leyti, að þar fær sá ákærði tækifæri til að gera fulla grein fyrir trú sinni.  Með háttvísi og djarfri framkomu leitaðist hann við að ná jafnt til dómaranna sem áheyrandanna yfirleitt með skírskotun sinni til staðreynda, sem þeim voru kunnar.  Síðan hefur hann gildi kristinar trúar upp yfir þetta allt og leiðir sannleikann með ljósum rökum fyrir augu þeirra.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband