Skólastarf í kristna landinu Íslandi.

Mig langar að þakka Dögg Harðardóttur fyrir ágæta grein þann 21. sl. í Fréttablaðinu.  Þar fjallar hún um þær tillögur mannréttindaráðs að loka aðgengi trúarsamfélaga að skólum Reykjavíkurborgar.  Þetta er merkilegt mál þar sem mannréttindaráð ætlar að taka skref í átt frá stjórnarskrárbundnum rétti íslendinga og ýmsar blikur eru á lofti að samsteypuborgarstjórn Besta (?) flokksins og Samfylkingar ætli sér að fara þá leið.  Þessu vil ég mótmæla harðlega.  Ég fæ ekki með nokkru móti séð að það sé hlutverk mannréttindaráðs að gerilsneyða skólastarf á Íslandi.  Því fyrst mannréttindaráð vill stíga þetta fyrsta skref frá þeim sjálfsögðu mannréttindum að njóta uppfræðslu í trúarlegu starfi í landi þar sem þjóðkirkja er kristin, er mjög líklegt að í næstu skrefum verði höggvið í sama knérunn.

Það rísa upp með reglulegu millibili trúleysihópar sem láta hátt, tala digurbarkalega um hættuna sem Jesúbarnið skapar fyrir önnur börn og heimta að skólastarf sé aðlagað að kröfum þeirra. Fréttir af syndugu líferni kristinna einstaklinga hafa síðan því miður verið olía á eld þessara hópa.  En afbrot þeirra rýra á engan hátt þann fagnaðarboðskap sem Biblían færir okkur.

Því megum við ekki láta þetta yfir okkur ganga.  Verum óhrædd við að stíga fram og láta skoðanir okkar í ljós.  Látum ekki minnihlutahópunum eftir skoðanamyndandi umræðu heldur „berjumst“ fyrir börnunum okkar og skólunum þeirra.  Og leyfum þessum röddum að berast inn í skólana.  Látum skólastarf verða grundvöll fyrir skoðanaskipti um gæði hluta, hugsunar og skoðana og brýnum fyrir börnunum okkar gagnrýna hugsun.  Við viljum ekki ala upp kynslóðir sem vegna ofverndar og mötunar hafa hvorki getu til að hugsa sjálfstæða hugsun né taka sjálfstæða ákvörðun.  Ólíkt mannréttindaráði treysti ég íslensku börnum okkar til að taka upplýsta ákvörðun með foreldrum sínum hvort heldur þau vilja ganga í skátana, tilheyra kristinni kirkju eða stunda íþróttir.

Ég vil síðan líka hvetja kristið fólk til að láta nú loksins í sér heyra, látum ekki ræna okkur þeim áfangasigrum sem 1000 ára kristni í landinu hefur fært okkur.
(Greinin var send til Fréttablaðsins þann 23.6)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

1. Geturðu fundið og vísað í einhverjar af þessum vísindalegu rannsóknum sem hún talar um varðandi að trúaðir séu svona miklu ánægðari en trúlausir?

2.  Getur "uppfræðsla í trúarlegustarfi" ekki farið fram utan skólatíma, fyrir þá sem hafa áhuga?

Arnar, 24.6.2011 kl. 11:49

2 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

1. Dögg svarar fyrir sig, hún er fullfær um það.  Ég get raunar fyrir mína parta sagt eftir að hafa prufað hvorttveggja að ég er mun ánægðari eftir að ég eignaðist trú .  Óska þér sama samanburðar.

2. Á sama tíma og menntamálaráðuneytið losar um ramma skólastarfs og leggur skólunum meira sjálfræði í hendur um hvernig námsefnisramma skal háttað vill „mannréttinda-“ ráð fara að útiloka uppfræðslu í þjóðtrú íslands.  Finnst þér þetta samræmanlegt?  Eða á einhvern hátt eðlilegt?

Og bara svona eina í lokin: Ertu jafn dedicated í baráttunni við aðra anga trúar, t.d. jóga eða ásatrú eða er þetta eitthvað persónulegt gegn kristni?

Ragnar Kristján Gestsson, 24.6.2011 kl. 13:39

3 Smámynd: Arnar

1. Dögg svarar ekki neinu, hún vísar ekki í þessar heimildir sem hún talar um.  Allar heimildir sem ég hef séð eru næstum þveröfugar, trúaðir eru verr menntaðir -> á lægri launum, eignast fyrr börn (unglinga-þungun er algengari) og glæpatíðni er hærri í 'trúuðum löndum'.  Ekki beint þættir sem bæta lífsánægju.

Trú og menntun: http://blogs.discovermagazine.com/gnxp/2008/05/educational-levels-denomination/

Trú og unglinga þunganir: http://parenting.blogs.nytimes.com/2009/09/17/religions-link-to-teen-pregnancy/

Trú og glæpatíðni: http://www.timesonline.co.uk/tol/news/uk/article571206.ece

Einnig ef löndum er raðað eftir 'trú' þá eru þau lönd þar sem trúin er mest ekki beint þekkt fyrir mannréttindi, lýðræði, menntun og bara lífsgæði almennt.

Ég var trúaður samkvæmt skilgreiningu; skráður í þjóðkirkjuna, skírður og fermdur, það var ekki að gera neitt fyrir mig.

2. Menntamálaráð Reykjavíkurborgar er ekki á vegum Menntamálaráðuneytis.  Tillaga Menntamálaráðs útilokar ekki uppfræðslu á þjóðtrú (skemmtilega orðað hjá þér) íslands, hún segir bara að sú uppfræðsla skuli fara fram hjá þar til gerðum kennurum en ekki af hendi presta eða meðlima Gideon.

Fyrir utan það svarar það ekki spurningunni:  Geta trúaðir foreldrar ekki frætt börnin sín um þeirra trú í sínum frí tíma?  Geta trúaðir foreldrar ekki sent börnin sín í sunnudagsskóla eða kirkjur almennt þar sem prestar geta fært þeim boðskapinn án nokkura truflana?

Ásókn ríkiskirkjupresta í grunnskóla, td. í gegnum vinaleiðina, er sérstaklega tilkominn vegna þess að sókn í sunnudagskóla hefur snarminnkað.  Eitthvað sem bendir sterklega til þess að meint trú þjóðarinnar sé stórlega ofmetinn og skráningar í þjóðkirkjuna gefi engan vegin rétta mynd af trú íslendinga.

Í lokinn: Nei, ekkert persónulegt.  Ef múslimar vildu fá að koma í skóla og afhenda 10 ára börnum kóraninn með þeim boðskap að allir sem hafa ekki lesið hann og trúa ekki því sem í honum stendur færu til helvítis væri ég alveg jafn mikið á móti því.  Ef Maggi Skarp vildi fá að mæta í skóla til að fræða börn um drauga og geimverur væri ég á móti því.  Ef eitthvað samsæriskenningalið vildi mæta í skóla og fræða börn um alheimssamsærið til að fækka fólki á jörðinni með eitrun í formi gufubólstra sem myndast fyrir aftan þotuhreyfla þá væri ég líka á móti því (sjá: Chemtrail conspiracy theory).  Gangvart mér er kristni ekkert öðruvísi en trú á álfa og tröll, bara nokkuð jafnmikið á móti því öllu.  Ef þú skoðar td. greinarnar sem ég vísa í þá gera þær engan greinarmun á trúarbrögðum.

Arnar, 24.6.2011 kl. 17:21

4 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Trúaður skv. skilgreiningu: ég komst nú ekki hjá því að höggva eftir þessu.  Skráning í þjóðkirkjuna, skírn og ferming.  Ég veit nú ekki hvort neinn af þessum þáttum hafi haft nokkuð um mína trú að gera, þetta eru hinsvegar áfangar fyrir þann sem trúir.  Ég get auðveldlega skilið að það hafi ekki gert neitt fyrir þig að fylgja dauðum bókstaf ef engin var trúin.  En þannig er það nú víst líka með stærðfræðina.  Ekki varð ég stærðfræðingur og lærði víst alltof mikið af henni (fannst mér í öllu fallil á tímabili).  Og ábyggilega með eðlisfræði, sögu, ...  Einhverstaðar velur maður sér leið byggða á þeirri reynslu sem maður hefur orðið fyrir - í og utan skólans - í því sem kallað er lífið.  Fyrst þjóðtunga okkar er íslenska er sjálfsagt að við lærum hana þrátt fyrir að við kjósum seinna meira að flytja til Qualalumpur eða Fjarskanistan.  Fyrst við notumst við metrakerfið er eðlilegt að við lærum að nota það, hvort heldur við búum seinna meira í Bandaríkjunum o.s.fr.  Fyrst þjóðtrú okkar íslendinga er kristin trú þykir mér að sama skapi eðlilegt að við lærum um hana í skólunum okkar OG að við fáum til þess hjálp þeirra sem hafa sérhæft sig til þess OG þeirra sem geta stutt skólastarf t.d. með að gefa börnunum Nýja Testamentið.

Í beinu framhaldi af skilgreiningunni og trúleysinu væri athyglivert að sjá rannsókn á fylgni trúar og lífshamingju á meðal fólks sem iðkar trúna (versus þeirra sem segjast gera það en gera það ekki).  Og almennt séð - eru það ekki mjög ólíkir þættir sem skapa lífshamingjuna: eitt sæluaugnablik er t.d. hjá mér á kvöldin þegar ég sit uppi í sófa umkringdur börnunum mínum og les fyrir þau fyrir svefninn.  Kannski þú dissir svona nokkuð og eigir þitt besta móment á Harleynum þínu krúsandi þjóðveg 1 (eða 66).  Menntun er síðan mjög ofmetinn máttur og tengist hamingju ekki neitt.

Þetta með lífshamingjuna, ég veit svosem ekki hvað ég að halda um það.  Þessar „heimildir“ þínar hafa náttúrulega sterkan bias, mjög vilhallar þínum málstað og m.a.s. þótt ég reyni að sjá þinn málstað.  T.d. er þessum fullyrðingum kastað fram án nokkurra athugasemda eða útskýringa.  Mjög spekulatíft.

Þarf að kíkja betur á the pew forum.

Ragnar Kristján Gestsson, 24.6.2011 kl. 18:13

5 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það rísa upp með reglulegu millibili trúleysihópar sem láta hátt, tala digurbarkalega um hættuna sem Jesúbarnið skapar fyrir önnur börn og heimta að skólastarf sé aðlagað að kröfum þeirra.

Ragnar, ef þú heldur að andstæðingar trúboðs í skólum séu það vegna þess að þeir telji trúboð beinlínis vera hættulegt, þá hefurðu greinilega ekki kynnt þér málflutning þeirra.

Ég tel t.d. það ekki skapa neina hættu ef Vinstri grænir fengu að far í skóla og kenna börnum allt um það hvað stefnuskrá þeirra sé frábær og að VG sé besti flokkurinn. En ég tel það ekki eiga heima í opinberum skólum.

Fyrst þjóðtrú okkar íslendinga er kristin trú þykir mér að sama skapi eðlilegt að við lærum um hana í skólunum okkar...

Hvað áttu við þegar þú segir að kristin trú sé "þjóðtrú okkar Íslendinga"?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.6.2011 kl. 13:37

6 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Sæll Hjalti

Kristin kirkja er stofunun skipuð utan um kristna trú.  Alas trú þeirrar þjóðkirkja er þjóðtrú okkar:

62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Eigið nú allir frábæran dag og njótiði sólskinsins, nú eða sólskynjunarinar, hvoru sem þið viðjið sitja í ljósi eða skugga.

Ragnar Kristján Gestsson, 25.6.2011 kl. 13:57

7 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Allt í lagi, þegar þú talar um að kristni sé þjóðtrú, þá ertu að vísa til þess að hérna er eitt trúfélag sérstaklega verndað í stjórnarskrá.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.6.2011 kl. 16:06

8 Smámynd: Egill Óskarsson

Þannig að þeir sem ekki eru í þjóðkirkjunni eru ekki hluti af þjóðinni?

Egill Óskarsson, 25.6.2011 kl. 16:09

9 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Nei Egill, ég var að vísa í stjórnarskrána. 

@ Hjalti: Þar er líka verndað eitt stjórnarfyrirkomulag, eitt tungumál, ein lög, eitt ríki, eitt Alþingi, ein þjóð ...  Ertu bara ósáttur við trúarþáttinn?

Ragnar Kristján Gestsson, 25.6.2011 kl. 16:15

10 Smámynd: Egill Óskarsson

Já ég veit það, en stjórnarskráin talar hvergi um að hér sé þjóðtrú. Þvert á móti talar hún um að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum án tilliti til utanaðkomandi hátta eins og trúarbragða.

Þegar þú reynir að réttlæta trúboð í skólum með því að hér sé einhver þjóðtrú þá ertu að halda því fram að hún sé á einhvern hátt rétthærri, að þeir sem ekki tilheyra henni verði bara að þola það að á rétti þeirra sé brotið. 

Það eina sem tillögur Mannréttindaráðs snúast um er að koma trúarlegu starfi og trúboðun úr skólunum og undir algjör yfirráð foreldranna. Mér finnst svolítið furðulegt að þið Dögg viljið fá að boða börnum foreldra með aðrar trúar- eða lífsskoðanir ykkar trú í friði. Ég hélt að fólk gerði sér grein fyrir því að vona mannréttindabrot í krafti meirihlutavalds eru ekki í lagi.

Egill Óskarsson, 25.6.2011 kl. 16:28

11 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ragnar, það er nú ekkert talað um að vernda eitt tungumál í stjórnarskránni (þó svo að hún sé auðvitað skrifuð á einu tungumáli). En já, ég er ósáttur við að eitt trúfélag sé sérstakt ríkistrúfélag, á sama hátt og ég myndi vera ósáttur ef það væri einn ríkisstjórnmálaflokkur hérna.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.6.2011 kl. 16:38

12 identicon

Kannski að ég sem unglingur komi með aðeins annað sjónarhorn inn í þetta.  Það er stöðugt verið að reyna að hafa áhrif á líf okkar og skoðanir:
Í bíómyndum sjáum við hvernig við eigum að haga okkur, í auglýsingum sjáum við hvernig við eigum að líta út eða hvað við þurfum alveg nauðsynlega að eiga, bækur segja okkur hvernig tilfinningar við eigum að hafa o.s.frv. Og á nú að banna kristinni að koma með sitt framlag í þessa flóru?

Það finnst mér óeðlilegt, einhvernveginn eiga allir að hafa réttindi til að segja frá því sem þeim finnst, og afhverju má dreifa bæklingum um getnaðarvarnir í skólum en ekki nýja testamentinu? Það er alveg jafn nauðsynlegt að mínu mati...

Vissuð þið að Hitler var líka fljótur að banna fermingafræðslu í skólum, og það var eitt af fyrstu skrefum hans í átt að þeim ofsóknum sem áttu sér stað, bæði gagnvart kristnum og gyðingum!

Hrefna Björg (IP-tala skráð) 25.6.2011 kl. 22:01

13 Smámynd: Egill Óskarsson

Hrefna Björg, hver er að banna kristninni að koma með sitt framlag? Ertu að horfa á bíómyndir í skólanum? Horfa á auglýsingar? Ertu látin lesa mikið af bókum sem segja þér hvaða tilfinningar þú átt að hafa?

Það er verið að fara fram á að boðun trúar fari fram utan skóla. Í leik- og grunnskólum á Íslandi eru börn af mörgum trúar- og lífsskoðunum. Börnin eiga ekki að þurfa að þola það að reynt sé að boða þeim trúar- og lífsskoðanir sem þau aðhyllast ekki. Foreldrar eiga ekki að þurfa að þola að börnum þeirra sé stillt upp við vegg vegna trúar- og lífsskoðana heldur. Og það sem meira er þá er þessi réttur barna og foreldra tryggður í Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, sem við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til þess að uppfylla. 

Þér finnst NT jafn nauðsynlegt og kynfræðsla. Veistu, ég er ósammála þér. Ég þekki t.a.m. engan sem hefur fengið sjúkdóma, jafnvel lífshættulega ólæknandi sjúkdóma, vegna þess að menn í jakkafötum fengu ekki að reyna að ávinna hann fyrir Jesú Krist, eins og yfirlýst markmið Gídeon með dreifingu NT er. 

Trúboð á ekki heima í opinberum almennum skólum. Hvað þá þar sem skólaskylda ríkir. Mér finnst ótrúlegt að það þurfi virkilega að benda á hversu óviðeigandi - og gegn ríkjandi réttindum barna - það er.

Egill Óskarsson, 25.6.2011 kl. 22:55

14 Smámynd: Arnar

Ragnar, þú hefur ekki enþá svarað spurningu nr. 2: Geta trúaðir foreldrar ekki boðið börnum sínum upp á trúarlegt uppeldi utan kennslutíma?

"Trúaður skv. skilgreiningu: ég komst nú ekki hjá því að höggva eftir þessu.  Skráning í þjóðkirkjuna, skírn og ferming."

Það er akkurat þessi skilgreining sem notuð er þegar því er slengt fram að "Ísland er kristin þjóð" og það svo notað til að réttlæta aðgengi ríkiskirkjunar í leik- og grunnskóla.  Ég vill meina, miðað við niðurstöður úr trúarlífskönnunum, að skráningar í ríkiskirkjuna, skírnir og fermingar gefi engan vegin rétta mynd af fjölda trúaðra einstaklinga á íslandi.  Td. var frétt núna í morgun á pressan.is um að ~75% skráðra meðlima í sænsku ríkiskirkjunni væru í raun trúlausir: http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/truleysi-i-svidthjod---75--medlima-saensku-thjodkirkjunnar-trua-ekki-a-gud-eda-jesus

Þú, og fleirri, viljið nota skráningar í ríkiskirkjuna til að réttlæta aðkomu presta, gídeon ofl. að skólabörnum.  Ég vill meina að tölurnar sem þið notið til stuðnings ykkar málstað séu rangar eða í besta falli misvísandi.

Arnar, 27.6.2011 kl. 10:25

15 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

@Arnar: Einfaldast er að svara þessu bara NEI enda var markmiðið með þessari grein (svo við höldum okkur við eitt málefni og látum ekki gamminn geysa útum allan völl) ekki að réttlæta trúboð í skólum.  Stundum geri ég það en ekki hér.  Ég var hinsvegar að draga í efa og gagnrýna það hlutverk mannréttindaráðs að einfalda og gerilsneyða íslenskt þjóðfélag.  OK?

Síðan eru til fleiri kristin trúfélög en þjóðkirkjan og þau fara stækkandi.  Líka í Svíþjóð.  Það virðist nefninlega vera að fólk kveðji þjóðkirkjuna og sæki í minni og nánari samfélög eins og Hvítasunnukirkjuna, Krossinn, Vantrú ofl. af mörgum og ólíkum ástæðum.

Ragnar Kristján Gestsson, 27.6.2011 kl. 11:26

16 Smámynd: Arnar

"Ég var hinsvegar að draga í efa og gagnrýna það hlutverk mannréttindaráðs að einfalda og gerilsneyða íslenskt þjóðfélag."

Þú gerir það út frá þeirri forsendu að Ísland sé kristið land, eins og segir í fyrirsögninni hjá þér.  Þú gefur þér væntanlega þá forsendu út frá því að stæstur hluti íslendinga er skráður í einhverskonar trúfélag.  Ég vill hinsvegar meina að það sé forsendubrestur fólginn í því að stór hluti þeirra sem eru skráðir í ríkiskirkjuna séu í raun ekki trúaðir.

Svo sé ég ekki hvernig áhrif ákvarðanna Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar eigi að hafa þessi áhrif á allt íslenskt þjóðfélag, eins og þú lýsir.

Arnar, 27.6.2011 kl. 11:43

17 Smámynd: Arnar

Annars er pínu sorglegt að trúaðar fjölskyldur skuli ekki treysta sér í trúarlegt uppeldi á börnunum sínum, en vilji hinsvegar að trúarlega uppeldið skuli fara fram innann um önnur börn sem hafa kannski áhuga á öðruvísi trúarlegu uppeldi eða jafnvel engan áhuga á trúarlegu uppeldi.

Arnar, 27.6.2011 kl. 11:46

18 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Vandamálið eða sönnunarbyrðin er þín megin því þú vilt breyta verandi skipulagi og endurskilgreina það eftir þínu höfði.  Með sömu rökum tökum við alla uppeldisskyldu grunnskólans og flytjum hana til baka til foreldranna.  Sem er reyndar mjög úr takti við verðandi þróun en kannski eitthvað sem þér hugnast.  Mér er minnisstæð kona sem býsnaðist yfir skólanum sem barnið hennar gekk í: og svo kann hann Óli (nafni breytt) ekki einu sinni að borða með hnífapörum kominn í 4. bekk.  Þessi börn eru alveg hætt að læra nokkurn skapaðan hlut þarna í skólanum.

Ragnar Kristján Gestsson, 27.6.2011 kl. 12:57

19 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Ég gleymdi að skella krækju á bak við „uppeldisskyldu grunnskólans"

Ragnar Kristján Gestsson, 27.6.2011 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband